Samtalsleit

Samtalsleit einkaleyfa er fjarfundur með einkaleyfarannsakanda sem leitar kerfisbundið að þekktri tækni í einkaleyfagagnagrunnum. Niðurstöðu samtalsleitar er ætlað að gefa uppfinningamanni hugmynd um nýnæmi uppfinningarinnar, þ.e. hvort uppfinning er þegar þekkt eða hluti hennar. Rannsakandinn er sérfræðingur í að leita í einkaleyfaskjölum og öðrum tækniupplýsingum en uppfinningamaðurinn hefur sérþekkingu á sinni uppfinningu.

Samtalsleit fer fram í samstarfi við Nordic Patent Institute í Danmörku (NPI). Fundurinn fer fram í gegnum Teams í einu af fundarherbergjum Hugverkastofunnar eða í tölvu umsækjanda. Fundurinn fer fram á ensku eða dönsku.

Hverjum gagnast þjónustan?
Samtalsleit gagnast þeim sem eru á fyrstu stigum í rannsóknar- og þróunarferli til að ákveða hvaða stefnu er rétt að taka varðandi mögulega einkaleyfisvernd. Samtalsleit gagnast líka þeim sem eru að leita að samstarfi eða mögulegum fjárfestum á síðari stigum rannsóknar- og þróunarferlis. 

Vinsamlegast athugið að eitt af grunnskilyrðum einkaleyfis er að uppfinningin sé ný og hafi ekki verið gerð opinber fyrir umsóknardag, hvorki af uppfinningamanni, umsækjanda sjálfum né öðrum.

Í hverju felst þjónustan?

  • Allt að tveggja tíma fjarfundi með sérfræðingi á sviði uppfinningarinnar.
  • Ítarleg leit í gagnagrunnum þar sem finna má 80–90% af tækniþekkingu í heiminum.
  • Skýrslu með niðurstöðum samtalsleitarinnar m.t.t. þegar þekktrar tækni. 
  • Niðurstaða leitarinnar er ekki staðfesting á nýnæmi uppfinningar. 
  • Fundurinn er trúnaðarmál.