Alþjóðlegt einkaleyfaferli

Á hverju ári leggja íslenskir aðilar inn fjölda einkaleyfisumsókna erlendis. Ein leið til þess er að sækja um hjá Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO). Með einni umsókn stofnast umsóknin í yfir 150 aðildarríkjum PCT–samningsins (Patent Cooperation Treaty). PCT er umsóknar- og rannsóknarferli og að því loknu þarf að yfirfæra umsóknina til þeirra ríkja þar sem verndar er óskað. Hugverkastofan getur haft milligöngu með PCT–umsóknir.  

Ætti ég að sækja um? 
Áður en alþjóðlegt umsóknarferli hefst er mikilvægt að kanna hvort uppfinningin uppfylli öll skilyrði. Hún þarf að vera ný á heimsvísu og frumleg og henni þarf að lýsa þannig að fagmaður á sviðinu geti endurtekið hana. Hægt er að leita að öðrum uppfinningum í alþjóðlegum gagnagrunnum, panta samtalsleit hjá Hugverkastofunni eða styðjast við niðurstöðu úr rannsókn á íslenskri grunnumsókn ef hún liggur fyrir.   

Hvenær er hægt að sækja um?
Hægt er að leggja inn alþjóðlega umsókn hvenær sem er. Gott er að sækja fyrst um á Íslandi og fá mat á umsókninni og nýta í framhaldinu forgangsrétt, þ.e. 12 mánaða frest frá umsóknardegi íslensku umsóknarinnar til þess að halda áfram.  

Forgangsréttur   
Ef sótt er um innan 12 mánaða frá umsóknardegi íslensku umsóknarinnar fær umsóknin sama umsóknardag og á Íslandi. Alþjóðlegi umsóknardagurinn verður þá gildisdagur. Enginn tími tapast því á meðan kannað er með fyrstu viðbrögð við íslensku umsókninni áður en alþjóðlegt umsóknarferli er hafið. 

Hvernig sæki ég um?  
Mælt er með því að sækja um í gegnum rafrænt umsóknarkerfi WIPO sem kallast ePCT-Filing. Athuga þarf vel að öll formskilyrði séu uppfyllt, t.d. varðandi texta, bil, merkingar o.fl. 

Merki Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO)
Merki Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO)

Kostnaður   
Kostnað vegna alþjóðlegrar umsóknar má áætla útfrá gjaldskrá á heimasíðu WIPO. Gjaldið byggir m.a. á alþjóðlegu umsóknargjaldi, gjaldi fyrir nýnæmisrannsókn, gjaldi fyrir fjölda blaðsíðna í umsókn ásamt umsýslugjaldi Hugverkastofunnar og gjaldi fyrir forgangsréttarskjal. Umsóknargjöld í heild greiðast til Hugverkastofunnar sem síðan áframsendir greiðslur til WIPO.  

Formleg yfirferð  
Þegar umsóknargjald hefur verið greitt fer Hugverkastofan yfir umsóknina m.t.t. formskilyrða sem umsóknin þarf að uppfylla. Ef athugasemdir eru gerðar fær umsækjandi tilkynningu og frest til lagfæringa. Því næst tekur WIPO við yfirferð umsóknar. Komi til athugasemda gefur WIPO umsækjanda frest til þess að leysa úr þeim.  

Hvað gerist þegar ég hef sótt um? 
Velja þarf í umsókninni hvaða rannsóknarstofnun fær umsóknina til rannsóknar. Íslendingar geta m.a. valið NPI eða EPO. Fyrst er gerð ítarleg leit að því sem þekkt er og umsækjanda send leitarskýrsla (International Search Report ISR). Síðan er hægt að fá rannsókn á einkaleyfishæfi og forálit (International Preliminary Report on Patentability IPRP).  

Ferlið tekur nokkra mánuði en þegar liðnir eru 30/31 mánuður frá fyrstu umsókn þarf að ákveða í hvaða löndum á að vernda uppfinninguna og senda hana til hugverkastofa þeirra landa sem taka sjálfstæða ákvörðun um veitingu einkaleyfis. Komi til synjunar er umsækjanda tilkynnt um það og veitt færi á að svara. Gæta verður vel að öllum frestum í ferlinu svo umsóknin falli ekki úr gildi. 

Hvernig fylgist ég með umsókninni minni?   
Í ePCT–gagnagrunninum og á Patentscope er hægt að fylgjast með umsóknum, þar eru öll gögn umsóknar aðgengileg.  

 

Í hnotskurn:

  • Hægt að sækja um í yfir 150 löndum

  • Uppfinningin þarf að vera

    ný, frumleg, hagnýtanleg

  • Vernd frá fyrsta umsóknardegi

    ef sótt er um innan 12 mánaða og einkaleyfi er veitt

  • Innan 30/31 mánaðar þarf að

    ákveða í hvaða löndum vernda á uppfinninguna

Rafræn umsókn hjá WIPO