Mannauðsstefna

Stefnumið 

Starfsfólk stofnunarinnar og þekking þess er grundvöllur starfseminnar og þess að stofnunin geti sinnt sínum skylduverkefnum og þjónustað samfélagið. Þar af leiðandi er mikilvægt að starfsfólk þess búi yfir hæfni og þekkingu til að þjónusta samfélagið. Hugverkastofan leggur áherslu á að vera eftirsóknarverður vinnustaður sem býður upp á tækifæri fyrir starfsfólk til að þróast og eflast í starfi.  

Ráðningar, móttaka nýliða og starfslok 

Unnið er eftir faglegu ráðningarferli þar sem hæfniskröfur eru skilgreindar út frá starfslýsingu og allar stöður eru auglýstar í samræmi við lög og reglur. Stutt er við nýtt starfsfólk og gætt vel að þjálfun og fræðslu nýliða. Við starfslok er lögð áhersla á vandaðan viðskilnað hvort sem þau eru tilkomin vegna aldurs, uppsagna eða annarra ástæðna.  

Starfskjör 

Áhersla er lögð á að starfsfólk Hugverkstofunnar búi við samkeppnishæft starfskjaraumhverfi. Launakjör eru ákvörðuð í samræmi við kjara- og stofnanasamninga, launa- og jafnlaunastefnuna.  

Jafnrétti  

Ævinlega skal gæta jafnréttissjónarmiða með það að markmiði að tryggja öllu starfsfólki jöfn tækifæri, sbr. jafnréttisstefnu Hugverkastofunnar. Allt starfsfólk skal meta að verðleikum, óháð kynþætti, þjóðerni, trúarbragða, litarháttar, efnahags, ætternis eða öðrum ómálefnalegum þáttum.  

Hugverkastofan hefur sett sér jafnlaunastefnu til að tryggja að launaákvarðanir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og þær feli ekki í sér beina eða óbeina mismun vegna kyns eða annarra atriða. Til þess að framfylgja jafnlaunastefnu sinni hefur stofnunin innleitt jafnlaunakerfi sem byggir á íslenska jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Jafnlaunakerfið felur í sér ákveðið fastmótað verklag við launaákvarðanir innan stofnunarinnar til að tryggja jafnrétti, stöðugar umbætur og leiðréttingu kynbundins launamunar, komi hann í ljós. Unnið er eftir jafnréttisáætlun sem er í gildi til þriggja ára í senn. 

Samræming vinnu og einkalífs 

Hugverkastofan er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem rík áhersla er lögð á jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Liður í því er sveigjanlegur vinnutími og útfærsla á betri vinnutíma. 

Virðing, vellíðan og heilsa 

Starfsfólk skal ávallt sýna samstarfsfólki sínu virðingu, umburðarlyndi, jákvætt viðmót og fyrirbyggja neikvæða hegðun. Leitast er við að skapa öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem hefur jákvæð áhrif á vellíðan og heilsu starfsfólks. Hugverkastofan styður við uppbyggingu á heilsueflandi vinnustað.

Fagmennska og framsækni 

Allt innra og ytra starf stofnunarinnar einkennist af gildum stofnunarinnar sem er fagmennska, þekking og traust. Áhersla er lögð á árangursdrifna vinnustaðamenningu, markvissa og góða ákvarðanatöku sem og að veita viðskiptavinum faglega og trausta þjónustu. Stutt er við frumkvæði og framsækni starfsfólks, gagnrýna hugsun og vilja til að gera sífellt betur.

Ábyrgð, framkvæmd og eftirfylgnu stefnunnar

Mannauðsstefna þessi skal endurskoðuð á þriggja ára fresti. Forstjóri ber ábyrgð á að mannauðsstefnu sé framfylgt. Stjórnendur og starfsfólk bera sameiginlega ábyrgð á að fylgja stefnunni. Viðhorfskönnun meðal starfsfólks skal framkvæmd að lágmarki árlega til að mæla hvort stefnan skili tilætluðum árangir og ráðstafanir gerðar til að lagfæra frávik frá markaðri stefnu sem fram kunna að koma.