Viðskiptaleyndarmál

Viðskiptaleyndarmál eru mikilvægur þáttur í hugverkavernd og geta veitt fyrirtækjum og einstaklingum virka vernd fyrir upplýsingar sem ekki henta til skráningar eða einkaleyfis. Þau geta einnig verið valkostur við einkaleyfi, eða nýst samhliða þeim, þegar markmiðið er að vernda þekkingu og viðkvæmar upplýsingar á samkeppnismarkaði.

Hvað telst viðskiptaleyndarmál?

Viðskiptaleyndarmál eru upplýsingar sem:

  • eru ekki almennt kunnar eða aðgengilegar innan viðkomandi atvinnugreinar,
  • hafa fjárhagslegt gildi vegna þess að þær eru leyndar,
  • og eigandi þeirra hefur gripið til sanngjarnra ráðstafana til að halda þeim leyndum.

Dæmi um slíkar upplýsingar geta verið framleiðsluaðferðir, uppskriftir, markaðsáætlanir, viðskiptasambönd, hugbúnaðarforskriftir og aðrar sértækar lausnir eða gögn sem skapa samkeppnisforskot.

Viðskiptaleyndarmál má vernda með trúnaðarsamningum
Viðskiptaleyndarmál má vernda með trúnaðarsamningum

Hvernig eru viðskiptaleyndarmál vernduð?

Lög nr. 13 frá 2020 um viðskiptaleyndarmál kveða á um réttarvernd gegn ólögmætri öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála. Lögin veita eiganda viðskiptaleyndarmála möguleika á aðgerðum fyrir dómstólum ef brotið er gegn verndinni.

Ólíkt einkaleyfum eru viðskiptaleyndarmál ekki skráð hjá opinberum aðilum, en verndin byggist á því að réttar kröfur séu uppfylltar og viðeigandi leynd haldið með markvissum hætti, til dæmis með trúnaðarsamningum, aðgangsstýringum og innri verklagsreglum.

Viðskiptaleyndarmál eða einkaleyfi – eða bæði?

Í mörgum tilvikum hentar betur að sækja um einkaleyfi á uppfinningu, sérstaklega ef um er að ræða tæknilausn sem uppfyllir skilyrði um nýnæmi og hagnýta notkun. Hins vegar kann að vera heppilegra að halda uppfinningu leyndri sem viðskiptaleyndarmáli, t.d. ef erfitt er að greina hana í tilbúinni vöru eða ef verndartími einkaleyfis yrði takmarkandi.

Í reynd vinna þessir tveir verndarflokkar oft saman. Fyrirtæki kunna að sælkja um einkaleyfi fyrir hluta af vöru en halda öðrum þáttum leyndum, t.d. framleiðsluaðferð, rekstrarþekkingu eða reikniritum.

Alþjóðleg vernd

Viðskiptaleyndarmál njóta verndar samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, þar á meðal TRIPS-samningnum (Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights). Lög um vernd viðskiptaleyndarmála á Íslandi eru í samræmi við þessar skuldbindingar. Í flestum löndum gilda sambærileg meginreglur, þó að framkvæmd og réttarúrræði geti verið mismunandi.

Hvaða upplýsingar eru ekki viðskiptaleyndarmál?

Reynsla og færni sem starfsmenn hafa hlotið í hefðbundnum störfum sínum teljast ekki til viðskiptaleyndarmála. Það sama á við um upplýsingar sem eru almennt þekktar eða auðvelt er að nálgast.

Hvernig má passa upp á viðskiptaleyndarmál?

Á meðal ráðstafana sem fyrirtæki getur gripið til að verna viðskiptaleyndarmál má nefna trúnaðarákvæði í ráðningarsamningum starfsmanna og gerð trúnaðarsamninga við verktaka og aðra samstarfsaðila fyrirtækisins. Jafnframt er mikilvægt fyrir fyrirtæki að takmarka aðgengi að þeim upplýsingum sem teljast til viðskiptaleyndarmála svo aðeins þeir sem þurfa upplýsingarnar geti nálgast þær.

Í hnotskurn:

  • Óskráður réttur

  • Hægt að framselja