Hugverkaréttindi

Hugverk (e. Intellectual Property – IP) eru verk hugans – hugmyndir sem búið er að útfæra og koma á áþreifanlegt form. Í þeim felast verðmæti sem skipt geta sköpum við vöxt og velgengni fyrirtækja. Með skipulagðri vernd og góðri markaðssetningu tengja neytendur t.d. merki og hönnun eða tæki og búnað ekki aðeins við viðkomandi fyrirtæki heldur einnig við eftirsótta eiginleika eins og gæði, þjónustulund, gott verð o.fl. Með því skapast viðskiptavild sem oft er erfitt að ákvarða raunverulegt virði fyrir.

Hugverk eru oft talin vera verðmætustu eignir fyrirtækja og þeirra helstu viðskiptatæki.

Vernd hugverka = hugverkaréttindi
Hugverk þarf að veiða upp úr skúffum og vernda með einhverjum hætti svo til verði hugverkaréttindi, þ.e. einkaréttur til að nota þau eða banna það öðrum. Með vernd skapast eignaréttindi sem hægt er að nýta, alveg eins og hús eða bíl. Mismunandi er hvort nóg er að nota þau til þess að verndin verði til eða hvort nauðsynlegt er að fá réttindin skráð. Þá geta margar tegundir réttinda falist í einni og sömu vörunni.

Alltaf þarf að skoða, áður en fjármunum er varið í notkun, markaðssetningu eða skráningarferli, hvort annar hafi verið fyrri til og eigi nú þegar eins eða lík réttindi.

Leitarvélar Hugverkastofunnar

Tegundir hugverkaréttinda

 • Vörumerki

  Tákn sem eru notuð til að auðkenna vörur og þjónustu

 • Einkaleyfi

  Tæknilegar uppfinningar, t.d. tæki og aðferðir

 • Hönnun

  Útlit vöru eða hluta af vöru, þ.e. lögun, litir, mynstur o.fl.

 • Byggðarmerki

  Auðkenni sveitarfélaga

 • Afurðarheiti

  Landbúnaðarafurðir framleiddar á sérstökum svæðum eða samkvæmt tiltekinni hefð

 • Höfundaréttur

  Verk sem njóta höfundaréttar eru t.d. bókmenntir, tónlist, myndlist, ljósmyndir og forritunarkóði

 • Viðskiptaleyndarmál

  Ýmiss konar upplýsingar sem eru verðmætar fyrirtækjum og miklu máli skiptir að sé haldið leyndum

 • Lén

  Lén eða vefslóðir geta skapað hugverkarétt