Sækja um erlendis

Hugverkaréttindi sem eru skráð hjá Hugverkastofunni njóta aðeins verndar á Íslandi. Ef til stendur að selja vörur eða þjónustu erlendis er mikilvægt að huga tímanlega að vernd hugverkaréttinda í þeim löndum þar sem stefnt er að sölu eða markaðssetningu.

Til að skrá réttindi erlendis eru ýmsar leiðir færar. Þannig er mögulegt að sækja um í einstaka löndum, leggja inn svæðisbundnar umsóknir eða fara í alþjóðlegt umsóknarferli.

Yfir 190 lönd eru aðilar að Alþjóðahugverkastofnuninni.
Yfir 190 lönd eru aðilar að Alþjóðahugverkastofnuninni.

Alþjóðlegt umsóknarkerfi einfaldar umsækjendum að sækja um í mörgum löndum samtímis. Ákvörðun um vernd liggur hins vegar ávallt hjá hugverkastofu í hverju landi eða svæði fyrir sig.

Alþjóðlegar umsóknir
Umtalsverður fjöldi íslenskra aðila nýtir sér alþjóðleg umsóknarkerfi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO), en með slíkum umsóknum er hægt að tryggja vernd á öllum stærstu mörkuðum heimsins. Hugverkastofan hefur milligöngu um alþjóðlegar umsóknir um vörumerki, einkaleyfi og hönnun.

Evrópskar umsóknir
Hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) er hægt að leggja inn umsóknir um skráningu vörumerkja og hönnunar sem geta gilt í öllum aðildarríkjum sambandsins. Þá tekur Evrópska einkaleyfastofan (EPO) við umsóknum um einkaleyfi sem geta tekið gildi í yfir 40 löndum.