Jafnlaunastefna Hugverkastofunnar

Jafnlaunastefna Hugverkastofunnar tekur til allra starfsmanna stofnunarinnar, að undanskildu starfsfólki Faggildingarsviðs, og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Hugverkastofunnar þau réttindi varðandi launajafnrétti sem kveðið er á um í lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Jafnlaunastefna þessi er órjúfanlegur hluti af launastefnu Hugverkastofunnar.  

Allt starfsfólk óháð kyni skal njóta jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Þau laun sem lögð eru launaákvörðunum til grundvallar skulu ekki fela í sér kynjamismunun. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við kjara- og stofnanasamninga, studdar rökum og tryggi að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf.  

Til þess að fylgja eftir jafnlaunastefnu Hugverkastofunnar skuldbindur stofnunin sig til að:  

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda vottuðu jafnlaunastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur staðalsins ÍST85 og öðlast jafnlaunavottun í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.  
  • Framkvæma launagreiningu og kynna helstu niðurstöður ásamt jafnlaunastefnu fyrir starfsfólki árlega. 
  • Bregðast við ef kröfur staðalsins eru ekki uppfylltar, þar á meðal við óútskýrðum kynbundnum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti. Ef um óútskýrðan launamun er að ræða skal leiðrétta hann innan tveggja mánaða.   
  • Framkvæma árlega innri úttekt og rýni stjórnenda þar sem jafnlaunamarkmið eru sett fram og rýnd. 
  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta á fundi að þeim sé hlítt.  
  • Tryggja að jafnlaunastefna þessi sé aðgengileg á ytri vef Hugverkastofunnar.