Leiðbeiningar um gerð byggðarmerkja

Reglur um gerð byggðarmerkja eru þær sömu og gilda almennt um gerð skjaldarmerkja. Í báðum tilvikum er byggt á reglum skjaldarmerkjafræðinnar, á vitneskju um skjöldinn og táknin, samsetningu þeirra, litameðferð og útfærslu táknmálsins. Meginreglurnar, sem farið skal eftir, eru þessar:

  • Byggðarmerki skal hafa viðurkennda skjaldarlögun.
  • Ef fleti er skipt skal stuðst við reglur um flatarskiptingu.
  • Merkið skal vera einfalt að gerð og hafa augljósa og táknræna merkingu.
  • Nota skal fáa og „hreina“ liti í merkinu.
  • Viðurkenndir litir eru fjórir: blár, rauður, grænn og svartur.
  • Viðurkenndir „málmar" eru tveir: gylltur (gulur) og silfraður (hvítur).
  • Litir mega ekki liggja saman.
  • Málmar mega ekki liggja saman heldur verður litur ávallt að vera á milli.
  • Merkið skal vera í tvívídd.
  • Forðast skal að gefa merki ýktar útlínur.
  • Merkið skal hafa eins fáa fleti og unnt er og það sama á við um myndir.
  • Myndefnið skal fylla sem best út í skjaldarflötinn.
  • Merkið má ekki innihalda bókstafi, tölustafi eða sambærileg tákn.

Lögun
Byggðarmerki skulu hafa skjaldarlögun og vera einföld að allri gerð. Táknin eiga að vera innan skjaldarformsins og mega alls ekki ganga út úr því. Helstu skjaldarform eru eftirfarandi:

Skipting
Helstu grunnskiptingar á skjaldarfleti eru eftirfarandi:

  • Þverskiptur

    Þverskiptur

  • Klofinn

    Klofinn

  • Skáskiptur

    Skáskiptur

  • Vinstri skáskiptur

    Vinstri skáskiptur

  • Skjaldarhöfuð

    Skjaldarhöfuð

  • Skjaldfótur

    Skjaldfótur

  • Bjálki

    Bjálki

  • Stólpi

    Stólpi

  • Fjórskiptur

    Fjórskiptur

  • Skáfjórskiptur

    Skáfjórskiptur

  • Oddur upp

    Oddur upp

  • Oddur niður

    Oddur niður

  • Skábjálki

    Skábjálki

  • Vinstri skábjálki

    Vinstri skábjálki

  • Þríklofinn

    Þríklofinn

  • Þrískáskiptur

    Þrískáskiptur

Notkun lita
Samkvæmt hefð byggist litanotkun á fáum og hreinum litum sem eru lítið blandaðir. Litir eru fjórir og málmar tveir. Æskilegt er að nota ekki fleiri en þrjá liti eða málma á hvert merki. Þriðji litur er þá gjarnan notaður ef draga á sérstaklega fram atriði eins og nef, tungu, kló á dýri eða til dæmis axarblað.

Merkið þarf að hugsa og útfæra í svart/hvítu þannig að öll megineinkenni þess skili sér.

Við hönnun merkis þarf að gæta þess sérstaklega að litameðferð standist einföldustu útfærslur á merkinu og alla hugsanlega notkun þess.

Aðeins er notað eitt afbrigði af hverjum lit, svokallaður „hámarkslitur“. Rastaður litur er ekki notaður og ekki aðrir litatónar t.d. grár eða litskuggar. Blandaðir litir, svo sem gulbrúnn, fjólublár og appelsínugulur, standast ekki kröfur skjaldarmerkjafræðinnar. Málmar eru helst notaðir þegar þrykkt er á hluti, svo sem minjagripi og vandaðri prenthluti. Málmar eru t.d. ekki notaðir á fána. Þar er notaður hvítur eða gulur litur.

Litir:

  • Rauður

    Rauður

  • Blár

    Blár

  • Grænn

    Grænn

  • Svartur

    Svartur

Málmar:

  • Gull

    Gull

  • Gulur

    Gulur

  • Silfur

    Silfur

  • Hvítur

    Hvítur

Notkun táknmáls
Lögð er áhersla á að myndmál merkis sé sem einfaldast. Mikilvægt er að myndin þoli mismunandi stærðir og sjáist vel úr fjarlægð. Æskilegt er að merkið hafi mynd- eða táknræn tengsl við byggðarlagið sem það er fyrir. Algengt er að það byggi á einhverju sem tengist t.d. sögu svæðisins, þjóðsögum, vísinda- eða alþýðutúlkun á örnefnum eða sé myndræn lýsing á heiti svæðisins. Útfærsla á náttúrufyrirbrigðum krefst einföldunar og mikillar umhugsunar. Æskilegast er að nota einungis eitt tákn.

Sama táknið má nota oftar en þá samkvæmt reglum skjaldarmerkjafræðinnar. Sérstök einkenni myndefnis má skerpa og gefa aukið gildi. Dýr í byggðarmerkjum snúa oftast til hægri (þ.e. til vinstri frá sjónarhóli áhorfandans). Algengast er að gin þess snúi einnig til hægri. Ekkert er þó á móti því að það snúi hausnum fram eða til vinstri. Forðast ber að nota aukaform, skrautkanta og annars konar skreytingar í byggðarmerki eða byggðarmerkjafána.