Alþjóðlegt samstarf

Hugverkastofan á í víðtæku alþjóðlegu samstarfi enda er undirstöðu þeirra laga og reglna sem stofnunin starfar eftir varðandi hugverkaréttindi að finna í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. 

Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO – World Intellectual Property Organization) er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og hefur Ísland verið aðili að þeirri stofnun frá árinu 1986. WIPO ber ábyrgð á þeim samningum sem skapa samræmda umgjörð um hugverkaréttindi, s.s. alþjóðleg skráningarferli, útfærslu umsókna og skráninga og hlutverk hugverkastofa í hverju ríki. Á vegum stofnunarinnar starfa ýmsir vinnuhópar að uppfærslum og nútímavæðingu samninganna og verklags í kringum þá og á Hugverkastofan fulltrúa á þeim fundum sem varða vörumerki, einkaleyfi og hönnun og sækir auk þess allsherjarþing stofnunarinnar ár hvert. 

Ísland gerðist aðili að Evrópsku einkaleyfastofunni (European Patent Office) árið 2004 og árið 2006 tók Evrópski einkaleyfasamningurinn (EPC – European Patent Convention) gildi hér á landi með breytingu á lögum um einkaleyfi. Aðildarríki samningsins eru alls 39 ríki í Evrópu sem reka í sameiningu Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO – European Patent Office), skráningaryfirvald samkvæmt EPC. Á vegum EPO starfar fjöldi nefnda og ráða sem Hugverkastofan á fulltrúa í, m.a. fjármála-, laga- og tækninefndir, sem og framkvæmdaráð. Forstjóri Hugverkastofunnar hefur verið varaformaður framkvæmdaráðsins frá árinu 2019 og var í árslok 2021 endurkjörin til næstu 3ja ára. 

Ísland á og rekur í samstarfi við Noreg og Danmörku Nordic Patent Institute, NPI sem er leitar- og rannsóknarstofnun vegna einkaleyfa. NPI er stýrt af hugverkastofum aðildarríkjanna og hefur forstjóri Hugverkastofunnar verið stjórnarformaður NPI frá árinu 2011. NPI hefur umsjón með þeim samtalsleitum sem Hugverkastofan býður viðskiptavinum sínum upp á og getur auk þess framkvæmt leitir að þekktri tækni á markaði eða frelsi til athafna á markaði (e. freedom to operate) áður en haldið er með uppfinningu í umsóknarferli. 

Hugverkastofan á einnig í viðamiklu samstarfi við Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) sem hefur umsjón með skráningum vörumerkja og hönnunar í Evrópusambandinu (ESB). Hugverkastofan undirritaði árið 2013 samstarfssamning við EUIPO sem m.a. hefur leitt til aðildar Hugverkastofunnar að TM View og TM Class vegna vörumerkja og Design View vegna hönnunar. Þá gefur samningurinn færi á endurmenntun á þessu sviði og því að starfsfólk Hugverkastofunnar sæki starfsþjálfun hjá EUIPO í lengri eða skemmri tíma. Á grundvelli EES-samningsins er Hugverkastofan með áheyrn á samstarfsfundum aðildarríkja sambandsins vegna vörumerkja, hönnunar og framfylgni með hugverkaréttindum (e. enforcement) og sækir því reglulega fundi stofnunarinnar. Þá hefur stofnunin tekið þátt í og innleitt helstu samstarfsverkefni EUIPO varðandi túlkun á ákvæðum laga um vörumerki og hönnun. 

Hugverkastofan á fulltrúa í vinnuhópi EFTA um hugverkaréttindi sem fundar með reglulegu millibili með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Með því geta sérfræðingar stofnunarinnar haft bein áhrif á þær gerðir Evrópusambandsins á sviði hugverkaréttar sem koma til með að taka gildi hér á landi. Auk þess koma sérfræðingar stofnunarinnar að gerð fríverslunarsamninga EFTA við ýmis ríki þegar samið er um hugverkaréttarvernd. 

Norrænt samstarf hefur ávallt verið í forgrunni hjá Hugverkastofunni og funda fulltrúar stofnunarinnar reglulega með systurstofnunum á Norðurlöndunum um hugverkaréttindi, bæði stjórnendur og sérfræðingar. Fyrir nokkrum árum bættust Eystrasaltsríkin Eistland, Lettland og Litháen í hópinn.