Útgáfa » Fréttir
Iðunn Heiður Nökkvadóttir og Björg Ákadóttir í Grandaskóla hljóta Umhverfisbikar NKG og Hugverkastofunnar

13. júní 2024
Iðunn Heiður Nökkvadóttir og Björg Ákadóttir í Grandaskóla hlutu Umhverfisbikar Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) og Hugverkastofunnar fyrir hugmynd sína Blautrusl sem er ruslafata sem skilur vökvann frá ruslinu og safnar honum í neðra ílát. Kennari þeirra er Dagur Emilsson.
Lokahóf NKG 2024 fór fram laugardaginn 1. júní í kjölfar vel heppnaðrar tveggja daga vinnustofu í Háskólanum í Reykjavík. Eins og alltaf var erfitt verkefni fyrir dómnefnd að velja sigurvegara í vinningsflokkana þar sem öll börnin stóðu sig ótrúlega vel og skiluðu frábærri vinnu og hugmyndum. Það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sem veitti verðlaunin.
Aðalverðlaun keppninnar hlaut Matthildur Marteinsdóttir í Melaskóla fyrir hugmynd sína LabbaKort. Labbakortið er sérlega hentugt fyrir t.d. eldra fólk, hreyfihamlaða og aðra sem þurfa lengri tíma á grænu ljósi, til að labba yfir götuna. Kennarar Matthildar eru Sigrún Baldursdóttir og Sveinn Bjarki Tómasson.
Upplýsingar um sigurvegara í öðrum flokkum er að finna á vef Nýsköpunarkeppni grunnskólanna.
