Útgáfa » Fréttir

Hugverkastofan opnar stafræna gátt fyrir einkaleyfisumsóknir á vefnum

Hugverkastofan opnar stafræna gátt fyrir einkaleyfisumsóknir á vefnum

12. september 2023

Nú er hægt að sækja um einkaleyfi á Íslandi á vef Hugverkastofunnar með rafrænum skilríkjum. Stofnunin tók nýverið í gagnið nýja íslenska útgáfu af Front Office umsóknagáttinni sem þróuð var af Evrópsku einkaleyfastofunni (European Patent Office, EPO) í samstarfi við aðildarskrifstofur. Með opnuninni á umsóknarkerfinu á hugverk.is er nánast öll þjónusta Hugverkastofunnar orðin stafræn og hægt að sækja um öll helstu hugverkaréttindi í iðnaði á vef stofnunarinnar.

Í gáttinni er hægt að sækja um landsbundin einkaleyfi á Íslandi, staðfestingu á evrópskum einkaleyfum (EP staðfestingar) og viðbótarvottorð vegna lyfjaeinkaleyfa (SPC-vottorð), á íslensku og ensku. Innleiðing kerfisins hófst í mars á þessu ári og hefur gengið mjög vel. Ísland er fjórða landið til að innleiða kerfið en áður hefur það verið tekið upp í Grikklandi, Litháen og á Spáni. Gamla kerfinu sem notað var til að taka á móti einkaleyfisumsóknum, EOLF verður lokað 1. janúar 2024. Á vef Hugverkastofunnar er einnig hægt að sækja um skráningu vörumerkja og hönnunar og skila ýmsum öðrum erindum stafrænt.

Gáttin er opin öllum sem eru með íslensk rafræn skilríki eða smartkort frá EPO. Þó er mælt með því að umsækjendur um einkaleyfi leiti aðstoðar sérfræðinga í hugverkarétti við umsóknir, því nauðsynlegt er að einkaleyfisumsóknir séu rétt úr garði gerðar og fylgi ákveðinni forskrift til að einkaleyfi veiti tilætlaða vernd á hagnýtingu uppfinningar. 

Í einkaleyfisumsókn þarf að vera skýr lýsing á uppfinningunni sem sótt er um einkaleyfi fyrir,  ásamt teikningum, sé þeirra þörf, sem og greinargóð skilgreining á þeim kröfum sem sótt er um að einkaleyfið taki til. Lýsingin þarf að vera svo skýr að fagmaður geti á grundvelli hennar útfært uppfinninguna. Þá þarf umsókn að geyma ágrip af lýsingu og einkaleyfiskröfum og nafn uppfinningamanns. Umsækjandi þarf enn fremur að greiða umsóknargjald og árgjöld samkvæmt gjaldskrá.

Þegar umsóknargjöld hafa verið greidd fer fram rannsókn á nýnæmi og einkaleyfishæfi uppfinningarinnar. Sérfræðingar dönsku hugverkastofunnar sjá um rannsóknir á umsóknum um íslensk einkaleyfi fyrir íslensku Hugverkastofuna. Ferlið getur tekið allt frá nokkrum mánuðum og upp í 3–5 ár eftir því hversu flókin umsóknin er. Veitt einkaleyfi veita almennt 20 ára einkarétt á hagnýtingu tæknilegrar uppfinningar í atvinnuskyni, frá umsóknardegi.

Umsókn sem lögð er inn hér á landi gildir aðeins á Íslandi en hægt er að nota hana til þess að skapa rétt í öðrum löndum með því að nýta forgangsrétt samkvæmt alþjóðasamningum.