Útgáfa » Fréttir

Hugverkastofan tilnefnd til UT-verðlauna SKÝ fyrir stafræna opinbera þjónustu

Hugverkastofan tilnefnd til UT-verðlauna SKÝ fyrir stafræna opinbera þjónustu

29. janúar 2024

Hugverkastofan er tilnefnd til UT verðlauna SKÝ í flokknum stafræn opinber þjónusta, ásamt island.is og skipulagsgáttinni. Verðlaunin verða afhent af forseta Íslands í lok ráðstefnu- og sýningardags tæknifólks á UTmessunni föstudaginn 2. febrúar.

Flokkurinn stafræn þjónusta er ætlaður lausnum á opinbera markaðnum sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur hvers konar falla undir þennan flokk.

Hugverkastofan hefur sett sér metnaðarfulla stefnu fyrir stafræna umbreytingu. Einn af lykilþáttum hennar snýr að því að nýta veflausnir til að auka sjálfsafgreiðslu, bæta þjónustu og minnka handavinnu starfsfólks. Vefur Hugverkastofunnar, sem unninn var í samstarfi við Vettvang, er afrakstur fjölþætts samráðs við starfsfólk og helstu viðskiptavini. Í allri hönnun var lögð megináhersla á að stytta leiðir viðskiptavina að helstu upplýsingum og þjónustuleiðum og er sjálfsafgreiðsla viðskiptavina í forgrunni. Vefurinn hefur vakið athygli systurstofnana í öðrum löndum, einkum fyrir að vera þjónustumiðaðri en gengur og gerist.

Á vefnum eru mjög öflugar leitarvélar, sem auðvelda notendum að finna fljótt þau hugverkaréttindi sem eru skráð á Íslandi auk umsóknargátta fyrir vörumerki, hönnun og einkaleyfi. Þá er hægt að leggja inn á þriðja tug erinda með stafrænum hætti á vefnum. Nýlega voru skráningarskírteini og önnur gögn frá Hugverkastofunni einnig gerð aðgengileg í stafrænu pósthólfi á island.is. Þá var nýlega tekið í notkun innanhúss nýtt rannsóknarkerfi fyrir vörumerki sem einfaldar rannsókn umsókna um skráningu vörumerkja og sparar þannig tíma og flýtir fyrir afgreiðslu umsókna. Framundan eru fjölmörg verkefni og má þar nefna mínar síður, rafrænar greiðslur, frestbeiðnir og stafræn Hugverkatíðindi, auk þess sem til stendur að þróa núverandi lausnir áfram.