Útgáfa » Fréttir
Frá hugmynd til heimsfrægðar - Lauf er vörumerki mánaðarins

30. júní 2024
Orð- og myndmerkið Lauf er vörumerki júní mánaðar hjá Hugverkastofunni. Benedikt Skúlason, stofnandi og forstjóri Lauf, er nýfluttur aftur til Íslands eftir tveggja ára dvöl í Bandaríkjunum þar sem hann setti upp verksmiðju fyrirtækisins í Harrisonburg, Virginia. Við tókum tal af Benedikt í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Grandagarði í Reykjavík og heyrðum um Lauf ævintýrið.
Benedikt lýsir Lauf sem hágæðahjólafyrirtæki. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu hágæða malarhjóla og er að víkka vörulínu sína í skrefum. Að sögn Benedikts nýtir Lauf efniseiginleika trefjaefna, bæði koltrefja og glertrefja, betur en önnur hjólafyrirtæki. Með þessari tækni framleiðir Lauf hjól sem eru ekki aðeins í fremstu röð hvað varðar þyngd, heldur hafa þau einnig fjöðrun innbyggða í burðarvirkið.
Uppfinning framúrstefnulegs fjöðrunargaffals upphaf ævintýrisins
Fyrirtækið var stofnað í kringum uppfinningu framúrstefnulegs fjöðrunargaffals fyrir malarhjól. Þessi gaffall er léttari og viðbragðsfljótari en það sem áður hafði sést, ásamt því að vera viðhaldsfrír. Benedikt útskýrir að hjólagaffallinn sé sá hluti hjólsins sem heldur framdekkinu undir hjólinu. Fjöðrunarhjólagaffall Lauf tryggir meiri rásfestu, grip og þægindi sem gerir hjólreiðafólki kleift að hjóla hraðar en ella. Eftir að hafa selt gafflana í nokkur ár fóru hjólin að snúast enn frekar og hóf Lauf að selja malarhjól undir eigin nafni.

Starfsfólk Lauf allt hjólreiðafólk
Hjá fyrirtækinu vinna liðlega 20 starfsmenn og er um helmingur þeirra staðsettur á Íslandi en hinn helmingurinn í Bandaríkjunum. „Við erum öll hjólreiðafólk,“ segir Benedikt. „Það er jú skemmtilegra og betra að starfa innan áhugasviðs síns.“ Það skapar skemmtilega og sameiginlega stemningu á vinnustað þar sem öll deila sömu ástríðu fyrir hjólreiðum. Það má segja að starfsfólk Lauf sé allt í góðum gír enda fólk sem hefur gaman af útiveru og þeirri spennu sem hjólreiðar bjóða upp á. Þessi sameiginlega reynsla og áhugi gerir teymið sterkara og eykur samheldni, sem skilar sér í betri vöru og þjónustu. Það er bara þannig sem þau rúlla!
Verndun hugverkaréttinda mikilvæg fyrir Lauf
Aðspurður um kveikjuna að nafni fyrirtækisins segir Benedikt að það hafi tvöfalda merkingu, lauflétt og „leaf spring suspension“. Benedikt útskýrir að skráning vörumerkisins árið 2014 hafi verið nauðsynleg til að tryggja yfirráð yfir vörumerkinu á neytendamarkaði á heimsvísu. „Það væri glapræði að kosta til við markaðssetningu á vörumerkinu sínu, en eiga svo ekki vörumerkið,” segir Benedikt.
Hann segir verndun hugverkaréttinda mikilvæga fyrir Lauf. „Við störfum á hörðum samkeppnismarkaði þar sem mörg hjólafyrirtæki nota gjarnan sömu framleiðendurna fyrir vörur sínar. Þar sem framleiðslan sjálf og fagþekkingin sem þar liggur að baki, er aðgengileg mörgum aðilum, verða hugverkin á bak við vöruhönnunina enn mikilvægari.“

Við þróun nýrrar tækni er verndun hugverka ávallt einn af lykilþáttunum hjá Lauf. Benedikt segir að þau gefi ekki út nýjar vörur án þess að tryggja fyrst hugverkaréttindin. Þótt fyrirtækið hafi ekki enn þurft að beita einkaleyfunum sínum, vita þau til þess að þau hafi haft fælingarmátt og komið í veg fyrir að ákveðinn samkeppnisaðili framleiddi sambærilega vöru.
Benedikt mælir með að ungir frumkvöðlar velti fyrir sér hugverkaréttindum, sérstaklega ef þeir starfa innan greina þar sem einkaleyfi eru viðeigandi. „Á meðan nýja fyrirtækið þitt er lítið og veikburða, þá viltu ekki þurfa slást við stærri og sterkari aðila sem stelur tækninni þinni,“ segir hann. Það er því mikilvægt að vera á réttri braut hvað þessi mál varðar.
Á meðan nýja fyrirtækið þitt er lítið og veikburða, þá viltu ekki þurfa slást við stærri og sterkari aðila sem stelur tækninni þinni
Spennandi nýjungar í bígerð á næstu árum
Framtíðarplön Lauf eru metnaðarfull. Í dag er fyrirtækið leiðandi í flokki malarhjóla en ætlunin er að víkka vörulínuna enn frekar og herja á fleiri markaðssvæði. Benedikt spáir því að eftir 5-10 ár verði Lauf eitt af stærstu hágæðahjólafyrirtækjum heims. Þegar hann er spurður um komandi verkefni eða nýjungar brosir hann og segir að það séu margar spennandi nýjungar í bígerð en hann geti því miður ekki sagt meira frá þeim í bili en biður okkur um að fylgjast spennt með. Það er ljóst að Lauf er á spennandi vegferð, fulla ferð áfram og engar bremsur!
Vörumerki V0091690 skráð 1. júlí 2014
Sótt var um skráningu merkisins í janúar 2014, það var birt til skráningar 15. júlí 2014 og skráning endurnýjuð 14. apríl síðastliðinn í flokkum 12, 18, 25, m.a. fyrir farartæki, reiðhjól og fatnað.

Starfsfólk Hugverkastofunnar velur skráð vörumerki mánaðarins
Skráð vörumerki mánaðarins er unnið eftir fyrirmynd annarra norrænna hugverkastofa. Markmiðið með því að velja eitt skráð vörumerki til umfjöllunar í hverjum mánuði er að vekja athygli á mikilvægi vörumerkjaskráninga og kynna starfsemi Hugverkastofunnar. Starfsfólk stofnunarinnar kýs vörumerki mánaðarins úr hópi nýskráðra og nýendurnýjaðra íslenskra vörumerkja sem standa fyrir íslenska vöru og/eða þjónustu. Skráð vörumerki mánaðarins er vörumerki með skýr sérkenni og gott aðgreiningarhæfi, það má ekki vera lýsandi né má vera hætta á að því verði ruglað við önnur merki.