Útgáfa » Fréttir
„Kenna tölvum að tala“ – Grammatek er skráð vörumerki marsmánaðar

31. mars 2025
Á Breiðinni á Akranesi er starfrækt nýsköpunarsetur þar sem kennir margra grasa. Einn sprotinn er máltæknifyrirtækið Grammatek sem nýlega skráði vörumerkið sitt hjá Hugverkastofunni. Anna Björk Nikulásdóttir er annar stofnanda og framkvæmdastjóri fyrirtækisins og hún segist varla geta lýst því hversu gott umhverfið sé á Breiðinni og hversu gott það sé að vinna í þeim flotta og fjölbreytta hópi sem þar starfar. Orð- og myndmerki Grammateks er skráð vörumerki marsmánaðar hjá Hugverkastofunni og af því tilefni ræddum við Önnu um fyrirtækið, vörumerkið og fleira.

Anna segir að Grammatek hafi frá stofnun sinnt fjölbreyttum verkefnum sem tengjast máltækni en hafi undanfarið sérhæft sig í talgervingu eða „að kenna tölvum að tala.“ Fyrirtækið var stofnað árið 2018 af henni og manni hennar, tölvunarfræðingnum Daniel Schnell, sem hún segist hafa laumulega vélað í máltækni. „Við tókum virkan þátt í 1. áfanga máltækniáætlunar stjórnvalda árin 2019 til 2024. Þessi fyrsti áfangi fólst í því að skapa ákveðna innviði og gögn fyrir þróun máltækni fyrir íslensku,“ segir hún. „Sú vinna var mjög merkileg og það hefur vakið mikla alþjóðlega athygli hvernig íslenskt máltæknisamfélag tók sig saman undir merkjum Almannaróms til að vinna að gerð og framgangi áætlunarinnar: háskólar, rannsóknastofnanir, einkaaðilar, stjórnvöld og forseti Íslands og að allur afrakstur vinnunnar skuli hafa verið opinn. Við endurunnum t.d. íslenska framburðarorðabók sem var svo, eftir því sem mér skilst, notuð af Microsoft við þróun þeirra talgervla.“
Ísland leiðir alþjóðlegan samstarfsvettvang
Aðspurð hvort að framtíð íslenskunnar sé nú tryggð í stafrænum heimi segir hún að leikurinn sé langt í frá unninn en það sé samt sem áður óhætt að segja að máltæknáætlunin hafi komið fram á hárréttum tíma því þegar að gervigreindin og máltækni fór á flug í heiminum með útgáfu OpenAI á ChatGTP, hafi Ísland verið búið að vinna forvinnuna á meðan mörg önnur smá málsvæði hafi vaknað upp við vondan draum þar sem sambærileg grunnvinna hafi ekki átt sér stað. Þessi sérstaða Íslands hafi svo orðið til þess að nýlega fól UNESCO Íslandi að koma á fót alþjóðlegum samstarfsvettvangi á sviði menningar og tungumála í gervigreind þar sem reynsla Íslands af því að tryggja stafræna framtíð tungumáls síns verður í forgrunni.

Stefna á að bjóða upp á fleiri íslenskar raddir
Auk fjölbreyttrar vinnu við innviðaverkefni máltækniáætlunar á Grammatek m.a. í samstarfi við Hljóðbókasafn Íslands um stafrænan upplestur á íslenskum námsbókum. Þau þróuðu einnig appið Símaróm fyrir Android, sem er talgervilsapp þróað með þarfir blindra og sjónskertra í forgrunni en sem nýtist einnig lesblindum mjög vel. Fjölmörg önnur verkefni eru í þróun hjá þeim en það stærsta núna er að ljúka prófunum á Símarómi fyrir iPhone sem lengi hefur verið beðið eftir. Hingað til hefur enginn íslenskur talgervill keyrt á iPhone eða iPad og þessi nýja útgáfa Símaróms mun því verða bylting fyrir fjölmarga notendur. Það sé af nægum verkefnum að taka enda geirinn á fleygiferð og mikil þörf á fjölbreyttum lausnum til að breyta texta í tal. „Á árinu stefnum m.a. að því að bjóða upp á fleiri íslenskar raddir. Það er mjög mismunandi eftir einstaklingum hvernig rödd þeir kjósa og það er líka mismunandi hvernig raddir henta mismunandi efni. Það er langt síðan hægt var að velja ólíkar enskar talgervilsraddir en þessa fjölbreytni hefur vantað í íslensku. Það má t.d. hugsa sér að hvert fyrirtæki eigi sér sína eigin rödd og raddir verði þannig hluti af vörumerkjum eða brandi viðkomandi fyrirtækja.“
Er sjálf mikill lestrarhestur
En mun ritmálið deyja út með tilkomu talgervla? Er ekki í raun náttúrulegra fyrir manninn að hlusta en lesa? Anna segist vona að svo verði ekki en það megi samt segja að það sé orðið viðurkennt að fólk geti öðlast sömu þekkingu með því að hlusta og að lesa sjálft. Það sé hins vegar mjög mismunandi hvað henti fólki best, ekki bara út frá líkamlegri getu, heldur henti t.d. sumum bara betur að hlusta en öðrum að læra sjónrænt með lestri. „ Sjálf verð ég að sjá allt og er mikill lestrarhestur,“ segir Anna.
Tilbúin orð njóta sterkrar verndar
Grammatek kann að hljómar eins og gamalt erlent orð, en er það alls ekki, heldur orð sem Anna og Daniel bjuggu til úr gríska orðinu gramma sem þýðir bókstafur eða skrifað orð og tek sem vísar annars vegar til tækni og hins vegar til afgreiðslu eða geymslu, líkt og í apótekum, bókasöfnum (bíblíótekum) og jafnvel diskótekum. Notkun tilbúinna orða sem vörumerkja þykir einmitt til mikillar fyrirmyndar í hugverkageiranum og einkaréttur á slíkum orðum er sterkur í vörumerkjarétti. Merki Grammateks var hannað af Unni Jónsdóttur, sem einmitt er hluti af nýsköpunarsamfélaginu á Breiðinni. „Ástæðan fyrir því að við skráðum merkið var svo heimsókn frá fulltrúa Hugverkastofunnar á Breiðina síðasta haust, þar sem m.a. var rætt um mikilvægi þess að tryggja sér eignarrétt á vörumerkjum með skráningu. Þetta kveikti í okkur að drífa í þessu og við erum mjög ánægð með eiga núna skráð vörumerki. Við lítum á þetta sem ákveðna vörðu í okkar þroskaferli sem fyrirtæki og auðvitað skemmir ekki fyrir að vera að vera valið vörumerki mánaðarins,“ segir Anna að lokum.
Vörumerki V0136760 skráð 15. febrúar
Sótt var um skráningu orð- og myndmerkisins Grammatek í nóvember og það var skráð 15. mars síðastliðinn í flokkum 9 og 42, m.a. fyrir tölvuhugbúnað og hugbúnað sem þjónustu.
Starfsfólk Hugverkastofunnar velur skráð vörumerki mánaðarins
Skráð vörumerki mánaðarins er unnið eftir fyrirmynd annarra norrænna hugverkastofa. Markmiðið með því að velja eitt skráð vörumerki til umfjöllunar í hverjum mánuði er að vekja athygli á mikilvægi vörumerkjaskráninga og kynna starfsemi Hugverkastofunnar. Starfsfólk stofnunarinnar kýs vörumerki mánaðarins úr hópi nýskráðra og nýendurnýjaðra íslenskra vörumerkja sem standa fyrir íslenska vöru og/eða þjónustu. Skráð vörumerki mánaðarins er gott vörumerki út frá sjónarmiðum hugverkaréttar, það þarf að hafa skýr sérkenni og gott aðgreiningarhæfi, það má ekki vera lýsandi né má vera hætta á að því verði ruglað við önnur merki og síðast en ekki síst þarf að hafa á bak við sig skemmtilega sögu.