Upplýsingar fyrir nýja vörumerkjaeigendur

Til hamingju með skráningu vörumerkisins þíns hjá Hugverkastofunni. Hér eru nokkur mikilvæg atriði sem gott er að þú sem eigandi skráðs vörumerkis hafir í huga.

Gildistími skráningar
Skráning vörumerkis gildir í tíu ár frá umsóknardegi. Að þeim tíma liðnum er hægt að endurnýja skráninguna til tíu ára í senn, eins oft og óskað er.

Vernd
Skráningin veitir einkarétt á notkun merkisins á Íslandi fyrir þær vörur og/eða þjónustu sem hún nær til. Mikilvægt er að hafa í huga að skráningin er landsbundin og skapar ekki réttindi utan Íslands. Ef fyrirhuguð er markaðssetning erlendis, ætti að skoða möguleika á alþjóðlegri skráningu, t.d. í gegnum Madridarsamninginn eða hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins.

Notkunarskylda
Það er notkunarskylda á skráðum vörumerkjum. Hún er ætluð til að koma í veg fyrir að aðilar geti safnað vörumerkjum sem ekki eru notuð og komið þar með í veg fyrir að aðrir geti skráð eins eða lík merki. Ef merki er ekki notað innan fimm ára frá skráningu, eða notkun þess fellur niður í fimm ár samfellt, getur hver sem er farið fram á við Hugverkastofuna að skráningin verði felld niður.

Notkun annarra á eins eða ruglingslega líku merki
Við fylgjumst ekki með notkun annarra á eins eða ruglingslega líkjum merkjum en hvetjum þig til að vera með opin augun gagnvart slíku. Ef annar aðili sækir um skráningu á merki sem við teljum að sé ruglingslega líkt þínu merki munum við synja þeirri umsókn.

Endurnýjun skráningar
Hægt er að endurnýja skráningu á vörumerki sex mánuðum áður en hún rennur út og allt að sex mánuðum eftir. Fyrir endurnýjun á  skráningu er greitt endurnýjunargjald sem er jafnhátt og umsóknargjald. Það er mjög mikilvægt að að fylgjast vel með dagsetningum og tryggja að skráningin falli ekki úr gildi. Það er t.d. hægt að gera á Mínum síðum. Hugverkastofan sendir eiganda vörumerkjaskráningar áminningu um að komið sé að endurnýjun tímanlega áður en hún fellur úr gildi. Áminningin er send á netfang sem skráð er með umsókn og í stafrænt pósthólf á island.is. Ef breyting verður á eiganda vörumerkis eða ef netfang eiganda breytist er þess vegna mikilvægt að tilkynna það til okkar.

Niðurfelling skráningar
Hver sem er getur lagt fram beiðni um niðurfellingu vörumerkjaskráningar. Skráningu er hægt að fella niður í heild eða að hluta ef merki:

  • hefur ekki verið notað hér á landi í fimm ár
  • hefur öðlast almenna merkingu og tapað sérkenni
  • getur villt um fyrir neytendum hvað varðar eiginleika, gæði eða landfræðilegan uppruna.

Ógilding skráningar
Hver sem er getur krafist þess að Hugverkastofan ógildi skráningu vörumerkis. Unnt er að fara fram á ógildingu ef merki er talið hafa verið skráð andstætt ákvæðum vörumerkjalaga.

Breytingar
Tilkynna þarf Hugverkastofunni um breytingar á eignarhaldi skráningarinnar. Það er einnig mögulegt að gera ákveðnar breytingar á skráningunni sjálfri, þ.e. að takmarka þær vörur og/eða þjónustu sem skráningin nær til eða gera smávægilegar breytingar á mynd eða texta í merki. Ef veruleg breyting er gerð á skráðu vörumerki þarf að sækja um skráningu á nýju merki.

Veðsetning
Ef skráning hefur verið veðsett geta eigandi eða veðhafi tilkynnt Hugverkastofunni um veðsetninguna. Eigandi eða veðhafi bera ábyrgð á að tilkynna Hugverkastofunni um framsal veðs og eins ef veðsetning fellur niður.

Nytjaleyfi
Eigandi skráðs vörumerkis getur veitt öðrum leyfi til að nota merkið í atvinnuskyni með nytjaleyfi og óskað eftir að það sé skráð í vörumerkjaskrá. Eigandi skráningar eða nytjaleyfishafi bera ábyrgð á að tilkynna Hugverkastofunni um framsal nytjaleyfis og eins ef nytjaleyfi fellur úr gildi.

Ef þú hefur einhverjar spurningar eða þarft aðstoð við endurnýjun, alþjóðlega skráningu eða annað sem varðar vörumerkið þitt, þá er þér velkomið að hafa samband með tölvupósti á hugverk@hugverk.is með því að hringja í síma 580 9400 eða með því að skilja eftir skilaboð á spjallinu.