Hugbúnaður, upplýsingatækni og hugverk

Verðmætin sem skapast í hugbúnaðar– og upplýsingatæknigeiranum eru í eðli sínu óáþreifanleg. Hugverk sem skapast í þessum iðnaði geta verið margvísleg en erfitt getur verið að meta hvaða leið er best að fara til að vernda þau.

Einkaleyfi
Hugbúnað sem slíkan er almennt ekki hægt að vernda með einkaleyfi, því „forrit fyrir tölvur“ eru sérstaklega undanskilin einkaleyfishæfi og teljast ekki til uppfinninga. Hins vegar getur hugbúnaður sem stýrir frekari tæknilegri virkni (e. further technical effect) verið einkaleyfishæfur. Það getur t.d. átt við um hugbúnað sem stýrir færibandi sem flokkar fisk, þjappar gögnum, greinir myndir eða dulkóðar rafræn samskipti. Ákaflega mikilvægt er að huga að því snemma hvort hugbúnaður geti verið einkaleyfishæfur og leita ráðgjafar sérfræðings ef svo er.

Höfundaréttur
Höfundaréttur getur komið í veg fyrir að samkeppnisaðili afriti og hagnýti sér forritið þitt, fylgiskjöl og kóða. Þetta getur átt við uppbyggingu, röðun, skipulag eða útlit forritsins. Höfundaréttur nær til allra þátta frumlegrar tjáningar höfundar en ekki hugmyndanna, verklags, aðferðar við notkun eða stærðfræðihugtaka sem verkin byggjast á. T.d. njóta reiknireglur (e. algorithm) eða forritunarmál ekki verndar þar sem þær flokkast undir hugmyndir og grundvallarforsendur.

Höfundaréttur nær ekki yfir hugmyndina eða virkni kóðans sem slíks. Hins vegar nær höfundaréttur yfir tölvuforritið í því formi sem það er skrifað af forritara, þ.e.a.s. frumkóðann. Forrit sem slík, þ.e.a.s. frumkóðinn (e. source code) eru almennt talin vernduð með höfundarétti. Þann rétt þarf almennt ekki að skrá en hann verður virkur við birtingu kóðans.

Viðskiptaleyndarmál
Ef hvorki höfundaréttur né einkaleyfi veita nægjanlega vernd fyrir hugbúnaðinn þá getur verið hægt að verja hluta hans sem viðskiptaleyndarmál. Til að upplýsingar flokkist undir viðskiptaleyndarmál þurfa þær að uppfylla þrjú skilyrði:

  1. Upplýsingarnar eru verðmætar fyrirtækinu vegna þess að þær eru ekki aðgengilegar almenningi.
  2. Upplýsingarnar eru ekki almenn vitneskja.
  3. Gripið hefur verið til ráðstafanna til að halda upplýsingunum leyndum.

Erlendis
Á evrópska efnahagssvæðinu eru reglur um höfundaréttarvernd á tölvuforritum að miklu leyti samræmdar og ekki er nauðsynlegt að skrá verkið til að öðlast höfundarétt á Íslandi, í Evrópu eða í Bandaríkjunum. Almennt eru skilyrði fyrir einkaleyfavernd á hugbúnaði svipuð á Íslandi og í Evrópu. Í öðrum heimshlutum geta skilyrðin fyrir einkaleyfavernd á hugbúnaði verið mismunandi. Til dæmis er talið að almennt séu skilyrðin í Bandaríkjunum ekki eins ströng, en mælt er með því að leita ráðgjafar sérfræðings í hugverkarétti ef vafi leikur þar á.

Opinn hugbúnaður og copyleft
Mjög mikilvægt er að hafa í huga að hugbúnaður sem að einhverju leyti byggist á opnum hugbúnaði (open source) þarf oft að uppfylla ákveðin skilyrði sem hafa áhrif á hugverkarétt. Oft fylgja þeim skilyrði um að afraksturinn verði að vera aðgengilegur almenningi eða að höfundaréttur nái ekki yfir hann. Mikilvægt er að huga vel að skilyrðunum sem fylgja opnum hugbúnaði til að koma í veg fyrir að lenda í vandræðum hvað varðar eignarrétt á hugverkinu.

Annað
Meira um hugverkaréttindi og hugbúnað má finna á heimasíðu EPO.