Hlutun

Hugverkastofan getur, að beiðni umsækjanda og gegn greiðslu tilskilins gjalds, hlutað umsókn sundur í tvær eða fleiri umsóknir. Sama gildir um skráningar.  Nýja umsóknin/skráningin skal hafa sama umsóknar- og forgangsréttardag og grunnskráningin en sjálfstætt skráningarnúmer verður gefið. Nýja umsóknin/skráningin getur ekki innihaldið sama/sömu vöru- og/eða þjónustuflokk/flokka og sú fyrri.

Ákvörðun um hlutun umsóknar/skráningar er birt í Hugverkatíðindum.

Gögn vegna hlutunar umsókna og skráninga

Beiðni um hlutun umsóknar/skráningar skal innihalda:

  • númer umsóknarinnar/skráningarinnar sem óskað er að hluta,
  • lista yfir þær vörur og/eða þjónustu sem hver umsókn/skráning á að innihalda eftir hlutunina.

Umsókn eða skráning, sem verður til við hlutun, má ekki vera víðtækari en upprunalega umsóknin. Þá má nýja umsóknin/skráningin ekki taka til sömu vöru eða þjónustu og hin upprunalega.

Þegar beiðni um hlutun umsóknar hefur verið afgreidd fær nýja umsóknin nýtt sjálfstætt ­númer en heldur sömu umsóknar- og forgangsréttardagsetningu og upprunalega umsóknin sé slíku til að dreifa.

Þegar beiðni um hlutun vörumerkjaskráningar hefur verið afgreidd fær nýja skráningin nýtt sjálfstætt ­númer en heldur sömu skráningar-, umsóknar- og forgangsréttardagsetningu og upprunalega skráningin sé slíku til að dreifa.

Umboð, framsalsgögn og önnur skjöl tengd upprunalegu umsókninni/skráningunni gilda einnig fyrir nýju umsóknina/skráninguna sem verður til við hlutun.

Breytingin er birt í Hugverkatíðindum.