Alþjóðlegt hönnunarferli

Íslenskir aðilar eiga kost á að sækja um skráningu hönnunar erlendis. Ein leið til þess er að sækja um hjá Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO). Með alþjóðlegri umsókn er hægt að sækja um skráningu hönnunar í yfir 90 löndum. Sótt er um skráningu í rafrænu umsóknarferli á heimasíðu WIPO eða hjá Hugverkastofunni. 

Ætti ég að sækja um? 
Áður en alþjóðlegt hönnunarferli hefst er mikilvægt að kanna hvort eins eða lík hönnun sé þegar skráð í þeim ríkjum sem sækja á um vernd í. Eldri hönnun getur staðið í vegi fyrir skráningunni. Hægt er að leita að hönnun erlendis m.a. í Global Design Database–gagnagrunninum eða með því að skoða leitarvélar hugverkastofa viðkomandi landa.   

Hvenær er hægt að sækja um? 
Hægt er að leggja inn alþjóðlega umsókn hvenær sem er, ekki er skylda að hafa sótt um á Íslandi fyrst. 

Forgangsréttur 
Með umsókn hér skapast svokallaður forgangsréttur sem þýðir að í 6 mánuði frá umsóknardegi er hægt að leggja inn alþjóðlega umsókn og fá skráðan sama umsóknardag og á Íslandi. Umsóknin fær því forgang framyfir þá hönnun sem er eins eða lík og kemur fram í millitíðinni. Þar af leiðandi tapast enginn tími við að kanna með fyrstu viðbrögð við íslensku umsókninni.  

Hvernig sæki ég um? 
Sótt er um skráningu í rafrænu umsóknarferli á heimasíðu WIPO. Hugverkastofan getur einnig haft milligöngu um alþjóðlegar hönnunarumsóknir. 

Kostnaður 
Kostnað vegna alþjóðlegrar umsóknar má áætla með gjaldareiknivél WIPO. Gjaldið byggir m.a. á fjölda landa sem valin eru ásamt fjölda samskráninga og mynda. Auk umsóknargjalda til WIPO greiðist umsýslugjald til Hugverkastofunnar samkvæmt gjaldskrá. 

Merki Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO)
Merki Alþjóðahugverkastofunnar (WIPO)

Formleg yfirferð 
Þegar umsýslugjald hefur verið greitt fer Hugverkastofan yfir umsókn með tilliti til umsóknar/skráningar sem byggt er á. Ef athugasemdir eru gerðar fær umsækjandi tilkynningu og frest til lagfæringa. Því næst tekur WIPO við yfirferð umsóknar og fer m.a. yfir samskráningar og myndir. Komi til athugasemda gefur WIPO umsækjanda frest til þess að leysa úr þeim með milligöngu Hugverkastofunnar.  

Hvað gerist þegar ég hef sótt um? 
Þegar formskilyrði eru uppfyllt og umsóknin hefur fengið alþjóðlegt númer hjá WIPO er hún áframsend til hugverkastofa tilnefndra landa sem taka sjálfstæða ákvörðun um hvort hönnunina skuli skrá. Komi til synjunar er umsækjanda tilkynnt um það og veitt færi á að svara. Gæta verður vel að öllum frestum í ferlinu svo umsóknin falli ekki úr gildi. 

Tilnefning fleiri landa 
Ekki er hægt að bæta fleiri löndum við alþjóðlega umsókn eftir að sótt hefur verið um. Einungis er hægt að leggja inn nýja umsókn fyrir þau lönd sem óskað er að bæta við og hægt er að byggja á sama forgangsrétti og upprunalega var gert ef sótt er um innan 6 mánaða frá fyrsta umsóknardegi.  

Ef einhver er að nota hönnun erlendis er gott að hafa í huga að í sumum löndum stofnast hönnunarréttur fyrir notkun. Því er ráðlagt að kanna lög og reglur í hverju landi fyrir sig ef hugsanlegt er að það eigi við. 

Aðrar tilkynningar 
Ef breytingar verða á hönnun þarf að tilkynna um þær til WIPO. Þar má nefna sem dæmi eigendaskipti, takmörkun á myndum, tilnefning umboðsmanns o.s.frv. Hugverkastofan tekur við flestum gerðum eyðublaða og áframsendir til WIPO en bendir jafnframt á að mörg þessara eyðublaða eru komin með möguleika á að senda gögnin rafrænt til WIPO.   

Hvernig fylgist ég með skráningunni minni?  
Í gagnagrunnum WIPO Global Design Database er hægt að skoða upplýsingar um skráningarnar sínar. Fáist hönnunin skráð í einhverjum þeirra landa sem tilnefnd eru gildir skráningin í 5 ár og hægt er að endurnýja skráninguna hjá WIPO.

Í hnotskurn:

  • Hægt að sækja um í yfir 90 löndum

    með milligöngu Hugverkastofunnar

  • Vernd frá fyrsta umsóknardegi

    ef sótt er um innan 6 mánaða

  • Hönnun þarf að endurnýja

    hjá WIPO á 5 ára fresti

Rafræn umsókn hjá WIPO