Útgáfa » Fréttir

Skráningarskírteini og önnur gögn frá Hugverkastofunni nú aðgengileg á Ísland.is

Skráningarskírteini og önnur gögn frá Hugverkastofunni nú aðgengileg á Ísland.is

21. nóvember 2023

Hugverkastofan er á fleygiferð í stafrænni vegferð og í dag var skráningarskírteini fyrir vörumerki í fyrsta skipti sent í stafrænt pósthólf á Ísland.is. Fyrst um sinn verða staðfestingar á móttöku umsókna, skráningarskírteini, endurnýjunarvottorð og staðfestar útskriftir vegna vörumerkja send í pósthólfið. Á næstu vikum munu viðskiptavinir Hugverkastofunnar svo fá flest formleg erindi frá Hugverkastofunni í stafræna pósthólfið, m.a. varðandi hönnunarvernd og einkaleyfi og í kring um áramótin er gert ráð fyrir að öll bréf Hugverkastofunnar til viðskiptavina varðandi hugverkaréttindi verði aðgengileg þar.

Stafræna pósthólfið er lokað svæði á Ísland.is sem aðeins er aðgengilegt með rafrænum skilríkjum. Þar eru birtar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til einstaklinga og fyrirtækja.

Samkvæmt þriggja ára áætlun og lögum um stafrænt pósthólf er öllum opinberum aðilum skylt að bjóða upp á stafrænar birtingar eigi síðar en 1. janúar 2025. Með lögunum er fest í sessi sýn stjórnvalda um að meginboðleið samskipta við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað, gegnum stafrænt pósthólf á Ísland.is.

Nánari upplýsingar um stafrænt pósthólf er að finna hér.