Útgáfa » Fréttir

Ísland á topp tuttugu lista yfir mest nýskapandi ríki heims

Ísland á topp tuttugu lista yfir mest nýskapandi ríki heims

03. október 2022

Ísland er í tuttugusta sæti á Global Innovation Index 2022, lista Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) yfir mest nýskapandi ríki heims. Í fyrra var Ísland í 17. sæti listans og hefur fallið um þrjú sæti. Þrjú efstu sæti listans skipa Sviss, Bandaríkin og Svíþjóð, líkt og í fyrra. Kína hefur risið hratt á listanum undanfarin ár og er nú í ellefta sæti.

Listinn er byggður á mati á 80 mismunandi þáttum sem tengjast annars vegar aðstæðum til nýsköpunar og hins vegar niðurstöðum nýsköpunar. Ísland er í 12. sæti listans af 39 Evrópuþjóðum og skorar hærra en búast mætti við, miðað við þjóðarframleiðslu. Almennt skorar Ísland yfir meðaltali í þáttum sem tengjast stofnunum, innviðum, þroska markaðar (business sophistication), afurðum þekkingar og tækni og afurðum sköpunar. Þá er Ísland í 1. sæti þegar horft er til almennrar notkunar upplýsingatækni, rafmagnsframleiðslu á íbúa, hlutfalls erlendrar fjárfestingar í rannsóknum og þróun af þjóðarframleiðslu, fjölda birtra vísindagreina á íbúa og fjölda framleiddra kvikmynda á íbúa. Ísland skorar hins vegar lágt fyrir þjóðarframleiðslu miðað við orkunotkun (129. sæti), stærð innanlandsmarkaðar miðað við þjóðarframleiðslu (129. sæti), hlutfall erlendrar fjárfestingar af þjóðarframleiðslu (127. sæti) og hlutfall háskólanema sem útskrifast úr verkfræði-, raunvísinda- og tæknigreinum (85. sæti). Nánari upplýsingar um frammistöðu Íslands er að finna hér.

Í skýrslu Alþjóðahugverkastofnunarinnar um nýsköpun í heiminum sem gefin er út árlega samhliða listanum kemur fram að fjárfesting í rannsóknum og þróun, sem og önnur fjárfesting sem er mikilvæg fyrir nýsköpun, jókst umtalsvert árið 2021, þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. Fjárfesting fyrirtækja í rannsóknum og þróun jókst t.d. um 10% milli ára, mest í rafmagns- og upplýsingatæknibúnaði, hugbúnaðar- og upplýsingatækniþjónustu, lyfja- og líftækni og í byggingar- og málmiðnaði. Fjöldi áhættufjárfestingarsamninga jókst um 46% á árinu og hafa þeir ekki verið fleiri síðan á tímum netbólunnar á síðasta áratug síðustu aldar. Öfugt við það sem búast mætti við vegna faraldursins hefur birtum vísindagreinum og skráningum hugverkaréttinda einnig fjölgað. Aukinni fjárfestingu hefur þó ekki fylgt meiri framleiðni og vísbendingar eru um að hægt hafi á innleiðingu tækninýjunga þrátt fyrir aukna fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Líklegt er talið að áhrifum faraldursins sé um að kenna.

Um Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO – World Intellectual Property Organization)
Alþjóðahugverkastofnunin er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur verið aðili að henni frá árinu 1986. Stofnunin ber ábyrgð á þeim samningum sem skapa samræmda umgjörð um hugverkaréttindi, s.s. alþjóðleg skráningarferli, útfærslu umsókna og skráninga og hlutverk hugverkastofa í hverju ríki. Á vegum stofnunarinnar starfa ýmsir vinnuhópar að uppfærslum og nútímavæðingu samninganna og verklags í kringum þá. Hugverkastofan á fulltrúa á þeim fundum sem varða vörumerki, einkaleyfi og hönnun og sækir auk þess allsherjarþing stofnunarinnar ár hvert.

Um Hugverkastofuna
Hlutverk Hugverkastofunnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Stofnunin veitir einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði og vinnur að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi. Hugverkastofan heyrir undir nýtt ráðuneyti háskóla, nýsköpunar og iðnaðar.