Útgáfa » Fréttir

Er celeb í Suður-Kóreu – ISSI FISH & CHIPS er vörumerki desembermánaðar

Er celeb í Suður-Kóreu – ISSI FISH & CHIPS er vörumerki desembermánaðar

14. desember 2023

Á Fitjum í Njarðvík er að finna besta Fish & Chips stað landsins samkvæmt Google. Í einföldu gámahúsi við Reykjanesbrautina leynist ISSI FISH & CHIPS sem heimamenn og ferðamenn sækja til að kæta bragðlaukana. Þar stendur Jóhann Issi Hallgrímsson (sem á einmitt afmæli í dag), yfir hátæknivæddum og nettengdum djúpsteikingarpottunum og djúpsteikir þorsk og gellur frá Þorbirni í Grindavík og er orðinn nánast heimsfrægur fyrir.

Issi sótti nýlega um skráningu á orð- og myndmerki hjá Hugverkastofunni og starfsfólk hennar hefur nú valið það vörumerki desembermánaðar. Við fengum Issa til okkar í spjall í tilefni tilnefningarinnar.

„Ævintýrið hófst með þessu merki“
„Ég keypti kennitöluna af fjölskyldunni árið 2003 því ég var staðráðinn í að fara út í rekstur. Þetta er sjálfsagt orðin ein elsta kennitalan í veitingahúsarekstri á Íslandi,“ segir hann. „Ég vissi samt ekkert hvað ég ætlaði að gera en mig langaði að vinna með fisk og nýta menntun mína sem matreiðslumaður og þjónn. Ég fékk vin minn Jóhann Pál Kristbjörnsson til að hanna með mér merki sem átti að vera mynd af fiski og hann fékk þessa stórgóðu hugmynd að setja nafnið inn í beinagarðinn. Það má eiginlega segja að ævintýrið hafi hafist með þessu merki,“ segir hann.

Jóhann Issi Hallgrímsson
Jóhann Issi Hallgrímsson á og rekur, ásamt fleirum, ISSI FISH & CHIPS í Njarðvík

Flottustu matarvagnar landsins
„Árið 2006 var ég að vinna sem sölumaður hjá Ó. Johnson og Kaaber og var orðinn heillaður af hugmyndinni um að bjóða Íslendingum upp á almennilega íslenska útgáfu af þessum breska þjóðarrétti, Fish & Chips. Það varð til þess að ég tók mér þriggja daga frí í vinnunni til að heimsækja fyrirtæki sem sérhæfir sig í að smíða matarvagna og það varð úr að ég gekk frá kaupum á tveimur vögnum. Á þessum tíma fór mikil orka og tími í þessar pælingar sem varð til þess að ég var kallaður á fund í vinnunni til að fara yfir stöðuna. Þar ákvað ég að það væri kominn tími til að taka stökkið og bað um að fá að hætta til að geta einbeitt mér að þessu verkefni. Það var kannski ekki tekið mjög vel í það í byrjun en það varð þó niðurstaðan og fyrirtækið studdi mig meira að segja á ýmsan hátt til að koma þessari hugmynd á koppinn. Það eina sem mig vantaði á þessum tíma voru peningar.“

Fjármálin leystust með aðkomu Íslandsbanka í Reykjanesbæ og Alexander Poulsen sem kom inn sem meðeigandi. Þá var ekki aftur snúið. „Það var reyndar ekki alveg á planinu að kaupa tvo vagna en mér tókst að sannfæra söluaðilana úti um að selja mér tvo vagna á mjög góðu verði. Þegar ég sagði útibússtjóranum í bankanum að ég væri enn að vinna eftir gömlu viðskiptaáætluninni, en nú væri hún bara sinnum tveir, sagði hann við mig: „Issi, það er ekki 2007!“. En ég náði samt að sannfæra hann að lokum.“

Issi opnaði tvo matarvagna, annan á Fitjum og hinn í Grindavík, þar sem Issi er uppalinn. Issi segir að þetta séu flottustu matarvagnar landsins, sérsmíðaðir samkvæmt ítrustu kröfum íslensks heilbrigðiseftirlits, djúpsteikingarpottarnir hafi verið sérstaklega hannaðir fyrir matarvagna og í vögnunum hafi m.a. verið salerni fyrir starfsmenn, sem sé ekki algengt í slíkum vögnum hér á landi.

Issi og eiginkona hans og meðeigandi, Hjördís Guðmundsdóttir.
Issi og eiginkona hans og meðeigandi, Hjördís Guðmundsdóttir.

Vann frá sex á morgnana til ellefu á kvöldin
Vinnudagurinn fyrstu mánuðina var frá klukkan sex á morgnana til tíu, ellefu á kvöldin. „Þessi vinnutími gekk auðvitað ekki upp til lengdar og þegar ég var við það að hníga niður af þreytu ákvað konan mín, Hjördís Guðmundsdóttir, að segja upp fínni vinnu í Bláa lóninu, til að leggja í þetta ævintýri með mér og við höfum staðið saman í þessu síðan og hún m.a. séð alveg um bókhald og starfsmannamálin. Það hefur auðvitað ýmislegt gengið á og við fundum t.d. vel fyrir falli Wow Air, þegar Max vélarnar voru kyrrsettar og auðvitað Covid. En heilt yfir hefur reksturinn gengið vonum framar. Við keyptum lóðina á Fitjum 2018 og byggðum þar lítið gámahús undir staðinn.“

Í dag einbeita þau hjón sér að rekstri staðarins á Fitjum og eins matarvagns. Á Fitjum bjóða þau upp á djúpsteiktan þorsk með frönskum og heimatilbúinni sósu, djúpsteiktar gellur og fiskborgara. Þau huga mjög vel að umhverfismálum, góðri þjónustu og að koma í veg fyrir matarsóun, nota endurnýjanlegar umbúðir og reyna að endurnýta allan úrgang. Þau hafa líka farið alla leið með vörumerkið og starfsfólk klæðist sérhönnuðum og merktum fatnaði og derhúfum. Sjálfur er Issi alltaf með pípuhatt í vinnunni, eins og Bretinn, hann er líflegur karakter og veit sem er að hann sjálfur og sagan á bak við staðinn er kannski jafn mikilvægur hluti af fyrirtækinu og maturinn.

„Worth the trip to Iceland“
ISSI FISH & CHIPS á Fitjum
ISSI FISH & CHIPS á Fitjum

Fengið mikla umfjöllun erlendis
Staðurinn er með 4,9 í einkunn af 5 mögulegum á Google maps og fjölmargir gestir hans segja að Issi bjóði upp á besta Fish & Chips sem þau hafi smakkað. Issi segir að bresk hjón hafi nýlega sagt við sig að fiskurinn hans hafi verið „worth the trip to Iceland“. Meðmælin verða nú varla mikið betri en það. Staðurinn hefur einnig fengið heilmikla umfjöllun í erlendum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og fjölmargir viðskiptavinir leita staðinn sérstaklega uppi eftir að hafa séð umfjöllun um hann í erlendum miðlum. Issi segir að það hafi orðið sprenging í viðskiptum eftir að Tik-Tok stjarna fjallaði um staðinn og þá hafi honum verið sagt að hann sé frægur í Suður-Kóreu, eftir að áhrifavaldur þar í landi fjallaði um staðinn og hann sitji gjarna fyrir á sjálfum með fólki frá Suður-Kóreu sem komi til að bragða þennan einstaka fisk og hitta þennan fræga mann.

Næsta stopp: Singapore?
En af hverju sóttu þau um skráningu á vörumerkinu? Issi segir að það sé vegna þess að hann viti ekkert hverjir komi í vagninn og hann vilji ekki að aðrir geti auðveldlega stolið merkinu og hugmyndinni. Hann sé mjög ánægður með merkið og margir hönnuðir hafi hælt því fyrir að vera stílhreint og einfalt en þó koma því vel á framfæri hvaða þjónustu það standi  fyrir.

Það sem hafi ýtt sérstaklega á þau nú sé að rekstraaðilar í Singapore hafi áhuga á að opna staði undir merki ISSI FISH & CHIPS þar í landi og hafi m.a. nýlega boðið þeim hjónum til Singapore til að kanna aðstæður. Það hafi því verið tími til kominn að tryggja sér eignarrétt á vörumerkinu og fram undan sé að huga að skráningum á erlendum mörkuðum.

Hver veit, eftir nokkur ár verður kannski hægt að gæða sér á Issi Fish & Chips út um allan heim!

ISSI FISH & CHIPS vagninn
ISSI FISH & CHIPS vagninn gengur fyrir sólarorku og gasi

Vörumerki V0129953 skráð 15. nóvember
Issi sótti um skráningu á orð- og myndmerkinu ISSI FISH & CHIPS hjá Hugverkastofunni í mars á þessu ári og það skráð í nóvember, m.a. fyrir fisk, sósur og veitingaþjónustu í flokkum 29, 30 og 43.

Starfsfólk velur vörumerki mánaðarins
Vörumerki mánaðarins er nýtt framtak hjá Hugverkastofunni, unnið eftir fyrirmynd annarra norrænna hugverkastofa. Markmiðið með því að velja eitt vörumerki til umfjöllunar í hverjum mánuði er að vekja athygli á mikilvægi vörumerkjaskráninga og kynna starfsemi Hugverkastofunnar. Starfsfólk stofnunarinnar kýs vörumerki mánaðarins úr hópi nýrra og nýendurnýjaðra íslenskra vörumerkja sem standa fyrir íslenska vöru og/eða þjónustu. Vörumerki mánaðarins er vörumerki með skýr sérkenni og gott aðgreiningarhæfi, það má ekki vera lýsandi né má vera hætta á að því verði ruglað við önnur merki.