»

Fötin fara hring eftir hring – Hringekjan er skráð vörumerki janúar-mánaðar

Fötin fara hring eftir hring – Hringekjan er skráð vörumerki janúar-mánaðar

24. janúar 2024

Daginn áður en Jana Maren Óskarsdóttir og Davíð Örn Jóhannsson höfðu áætlað að opna verslunina Hringekjuna í Þórunnartúninu var brunaæfing hjá Reykjavíkurborg. Þetta var í janúar og gatan full af starfsfólki Reykjavíkurborgar sem var kalt og í hálfgerðu reiðuleysi. Þau ákváðu því að opna degi fyrr en þau höfðu ætlað og sjá hvort ekki mætti selja skrifstofufólkinu eitthvað af notuðum fötum. Það reyndist góð ákvörðun, þau seldu vel þennan dag og starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur síðan verið meðal traustustu viðskiptavina þeirra. En það skipti kannski meira máli að þarna fengu þau staðfest að hugmyndin var að virka, allskonar fólk er í dag tilbúið að kaupa notuð föt í alvöru fataverslun.

orð- og myndmerkið hringekjan
Orð- og myndmerkið hringekjan

Orð- og myndmerkið hringekjan hefur verið valið skráð vörumerki janúar-mánaðar af starfsfólki Hugverkastofunnar. Hringekjan er fataverslun sem selur notuð föt og fylgihluti. Viðskiptavinir verslunarinnar eru tvenns konar að sögn Jönu Marenar: annars vegar þeir sem leigja pláss til að selja föt og hins vegar hefðbundnari viðskiptavinir fataverslana, sem koma til að finna fallegar og góðar flíkur á góðu verði. Svo eru margir seljendur sem sjálfir versla föt í búðinni og þar myndast hin fullkomna hringrás.

Hringekjan selur notuð föt og fylgihluti
Hringekjan selur notuð föt og fylgihluti

Fínar frúr og jakkafatakallar meðal viðskiptavina
Jana, sem hefur áralanga reynslu sem verslunarstjóri í smáverslunum, segir að þau hafi allt frá byrjun lagt mikla áherslu á jákvæða upplifun viðskiptavina og að tilfinning þeirra ætti að vera að þeir væru að versla í alvöru fataverslun, ekki á fatamarkaði. Búðin er öll hönnuð með þetta í huga, það er gætt að því eftir bestu getu að föt sem eru þar til sölu séu hrein og vel nothæf, það er góð lykt í búðinni og fötin eru merkt með fallegum merkimiðum. Þá hafa þau staðið fyrir alls konar menningartengdum viðburðum í versluninni, m.a. mánaðarlegum tónleikum og fengið hönnuði til að vinna úr flíkum sem seljendur hafa skilið eftir hjá þeim.

„Það er alls konar fólk sem verslar hjá okkur, bæði fastakúnnar, fólk sem kíkir við einstöku sinnum og ferðamenn til dæmis. Við höfum skapað umhverfi þar sem fínar frúr og jakkafatakallar, sem eru vön að kaupa dýrar merkjavörur, geta verslað notuð föt. Um daginn kom strákahópur úr 7. bekk til okkar að versla, sem sýnir að við séum að ná til breiðs markhóps sem er sífellt að stækka,“

Jana Maren

Konseptið stækkanlegt út fyrir landsteinanna

Davíð Örn, hinn eigandinn og eiginmaður Jönu Marenar, er menntaður tölvunarfræðingur og bæði brenna þau fyrir endurnýtingu og sjálfbærri tísku, list og menningu. Hann segir að þau hafi reynt að gera allt sjálf og með hjálp sinna nánustu. Þannig sé búðin hönnuð og smíðuð af þeim með aðstoð fjölmargra vina og ættingja. Sama á við um heimasíðuna sem Davíð hannaði. „Konseptið er hannað þannig að hægt sé að stækka og fara með það lengra, jafnvel út fyrir landsteinana,“ segir hann. „Vefverslun er í vinnslu og við erum að vinna í að finna lausnir við þeim áskorunum sem fylgja því að selja einstakar vörur yfir netið.“

Vildu vernda sérstöðuna með skráningu vörumerkisins
Nafnið segja þau Jana og Davíð komið af því að þau séu að fara með fötin hring eftir hring í hringrásarhagkerfinu. Herðatréð í merkinu tákni þannig bæði fötin og hringrásina. Merkið er hannað af Pétri Guðmundssyni og Davíð Young sem störfuðu þá báðir hjá Metall Design Studios. Þau segjast hafa viljað vernda merkið með skráningu m.a. vegna þess að það séu fjölmargar verslanir að selja notuð föt en þau hafi mikla sérstöðu og hafi viljað tryggja að engin gætu nýtt sér þeirra vinnu við uppbyggingu vörumerkisins fyrir aðrar verslanir eða hugmyndir.

Hringekjan er staðsett á horninu á Þórunnartúni og Borgartúni.
Verslunin er staðsett á horninu á Þórunnartúni og Borgartúni.

Smáforrit til að tengja saman tónlistarfólk og tónleikastaði
Hringekjan er ekki það eina sem Jana og Davíð eru með á prjónunum því í tengslum við tónleikahaldið eru þau með í smíðum smáforrit til að tengja saman listamenn og staði, fólk og fyrirtæki sem vilja bjóða upp á lifandi tónlistarflutning og aðra listviðburði en þekkja kannski ekki til eða vita hvernig maður bókar listamenn. Markmiðið er að valdefla fólk innan tónlistarsenunnar og tryggja því tekjur. Í þetta verkefni hafa þau fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði  og nýsköpunarstyrk Vinnumálastofnunar og tekið þátt í Innovation Waves sem haldið er í tengslum við Iceland Airwaves.

Merki Hringekjunnar búið til úr fataafgöngum og öðru endurnýttu efni.
Merki Hringekjunnar búið til úr fataafgöngum og öðru endurnýttu efni.

Vörumerki V0130485 skráð 15. nóvember
Jana Maren sótti um skráningu á orð- og myndmerkinu hringekjan hjá Hugverkastofunni í maí í fyrra og það var skráð í desember fyrir smásöluþjónustu með fatnað í flokki 35 og fataleigu í flokki 45.

Starfsfólk Hugverkastofunnar velur skráð vörumerki mánaðarins
Skráð vörumerki mánaðarins er unnið eftir fyrirmynd annarra norrænna hugverkastofa. Markmiðið með því að velja eitt skráð vörumerki til umfjöllunar í hverjum mánuði er að vekja athygli á mikilvægi vörumerkjaskráninga og kynna starfsemi Hugverkastofunnar. Starfsfólk stofnunarinnar kýs vörumerki mánaðarins úr hópi nýskráðra og nýendurnýjaðra íslenskra vörumerkja sem standa fyrir íslenska vöru og/eða þjónustu. Skráð vörumerki mánaðarins er vörumerki með skýr sérkenni og gott aðgreiningarhæfi, það má ekki vera lýsandi né má vera hætta á að því verði ruglað við önnur merki.