Andmæli

Andmælaferlinu er ætlað að leysa ágreining um skráningu vörumerkja á einfaldan hátt snemma í skráningarferlinu. 

Andmæli

Öllum er heimilt að leggja fram andmæli innan tveggja mánaða frá birtingardegi vörumerkis. Birtingadagur miðast við birtingu í Hugverkatíðindum sem gefin eru út 15. hvers mánaðar á heimasíðu Hugverkastofunnar. 

Meðal annars er hægt er að leggja fram andmæli gegn skráningu vörumerkis ef viðkomandi telur að: 

 • Þegar hafi verið sótt um sama eða svipað merki fyrir sömu eða svipaða vöru- og þjónustuflokka þar sem talið er að hætta sé á ruglingi.
 • Merkið sem um ræðir geti skapað ruglingshættu við annað merki sem hafi öðlast vörumerkjarétt á grundvelli notkunar.
 • Merkið sem um ræðir sé eins eða líkt eldri réttindum, s.s. skráðu merki, firma, höfundarétti o.fl.
 • Merkið hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um vörumerki um skráningarhæfi.


Leggja fram andmæli

Andmæli gegn skráningu vörumerkis má tilkynna til Hugverkastofunnar með því að smella á viðeigandi hnapp á spjaldi vörumerkisins í vörumerkjaleitarvélinni.

Með andmælum skal fylgja tilskilið gjald skv. gjaldskrá. Gjaldið fæst ekki endurgreitt. 

Í andmælum skal koma fram: 

 • Nafn málsaðila/andmælanda og umboðsmanns hans ef við á, heimilisfang, sími og netfang.
 • Í viðhengi upplýsingar um grundvöll andmælanna.
  • Helstu rök fyrir andmælunum ásamt gögnum ef við á.
  • Þau ákvæði vörumerkjalaga sem andmælin byggja á.
  • Vöru- og/eða þjónustuflokkarnir sem andmælin ná til ástam tilgreiningum.
  • Eldri réttindi sem andmælin byggja á, ef við á.

Uppfylli andmælin ekki ofangreindar kröfur er andmælanda veittur stuttur frestur til lagfæringa. Séu gjöld vegna andmæla ekki greidd innan andmælafrestsins verður þeim vísað frá. Meðferð andmælamála og frestir

 • Hugverkastofan tilkynnir eiganda skráningar um framkomin andmæli. 
 • Eiganda er veittur frestur til að tjá sig þegar greinargerð andmælanda liggur fyrir.
 • Almennt fá aðilar máls tækifæri til að leggja inn tvær greinargerðir hvor.  
 • Byggi andmælin á ruglingshættu við eldra merki getur eigandi andmæltu skráningarinnar óskað eftir að andmælandi sýni fram á notkun sína á merkinu.
 • Að gagnaöflun lokinni úrskurðar Hugverkastofan í málinu.
 • Úrskurðurinn birtur í Hugverkatíðindum. 

 

Frestir að beiðni málsaðila

Að beiðni beggja aðila er heimilt að fresta málsmeðferð um að lágmarki tvo mánuði vilji aðilar leita sátta.

Að beiðni beggja aðila er heimilt að framlengja frestun máls um að lágmarki tvo mánuði í senn.

Beiðni um frestun skal berast Hugverkastofunni frá báðum aðilum sameiginlega eða hvorum um sig með samþykki gagnaðila og frestar Hugverkastofan þá málsmeðferð um að lágmarki tvo mánuði. Heimilt er að taka tillit til þeirrar tímalengdar sem aðilar óska eftir og fresta málsmeðferð í samræmi við slíkar óskir.

Nái aðilar sáttum, hvort sem er um að halda andmælamáli áfram eða ekki, skal sú niðurstaða tilkynnt Hugverkastofunni sem ýmist tekur málið til áframhaldandi meðferðar í heild eða að hluta eða fellir andmælamálið niður.

Að 24 mánuðum liðnum frá upphafi sáttaumleitana tekur Hugverkastofan málið til áframhald­andi meðferðar hafi upplýsingar um niðurstöðu sáttaumleitana ekki borist stofnuninni.

 

Frestun málsmeðferðar að frumkvæði Hugverkastofunnar.

Hugverkastofunni er heimilt að fresta málsmeðferð í andmælamáli ef líklegt er að niðurstaða í öðru máli muni hafa áhrif á málið. Fresti Hugverkastofan málsmeðferð fá málsaðilar sent rökstutt erindi þess efnis.

Úrskurður

Hugverkastofan úrskurðar í andmælamálum. Stofnunin tekur andmæli til greina í heild eða að hluta, hafnar þeim eða yfirfærir réttindin til and­mælanda hafi hann farið fram á það.

Telji Hugverkastofan að réttindin skuli yfirfærð til andmæl­anda er aðilum tilkynnt um þá niðurstöðu. Andmælanda er þá jafnframt veittur eins mánaðar frestur til að greiða nýtt umsóknargjald. Úrskurðað er í málinu þegar gjaldið hefur verið greitt. Greiði andmæl­andi ekki gjaldið innan tilskilins frests tekur Hugverkastofan málið til meðferðar að nýju.

Úrskurður í andmælamáli er sendur málsaðilum. Niðurstöður úrskurða eru birtar í Hugverkatíðindum og úrskurðurinn í heild sinni á vefsíðu stofnunarinnar, ásamt greinargerðum aðila.

Haldi skráning gildi sínu fær merkið skráningardag að liðnum þeim fresti sem málsaðilar hafa til að bera málið undir áfrýjunarnefnd eða dómstóla, fari málið ekki í þann farveg. Verði úrskurði Hugverkastofunnar um yfirfærslu réttinda í andmælamáli hnekkt endurgreiðir Hug­verkastofan umsóknargjaldið.

Hér má nálgast úrskurði Hugverkastofunnar í andmælamálum.

Áfrýjun

Niðurstöðu Hugverkastofunnar í andmælamáli er samkvæmt 1. mgr. 63. gr. vörumerkjalaga unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar innan tveggja mánaða frá úrskurði stofnunarinnar eða innan þriggja mánaða frá dagsetningu úrskurðar til dómstóla. 

Sjá niðurstöður áfrýjunarmála